STARF

Leikstjóri

Leikstjórar bera ábyrgð á greiningu, hugmyndavinnu og listrænni framsetningu þeirra verkefna sem þeir stjórna hverju sinni. Auk þess felst í starfi leikstjóra að gera verk- og kostnaðaráætlanir, stjórna æfingum, tryggja leikurum krefjandi verkefni til að fást við og samhæfa störf allra sem að vinnunni koma.

Leikstjórar vinna í leikhúsum, við kvikmyndir og gerð leikins efnis fyrir útvarp og sjónvarp, í samstarfi við hönnuði og aðra listræna stjórnendur, framleiðendur og ritstjóra.

Helstu verkefni
  • velja handrit og gera það tilbúið til flutnings í samstarfi við meðhöfunda
  • skipuleggja og stjórna áheyrnarprufum og velja í hlutverk
  • skipuleggja framleiðsluferli í samvinnu við framleiðendur
  • yfirumsjón með samspili listrænna þátta á borð við leikmynd, búninga, leikmuni, lýsingu, brellur, tónlist, gervi, dans og sviðsframkomu
  • umsjón með eftirvinnslu svo sem klippingu, tæknibrellum og vali á tónlist
  • sjá til að tíma- og fjárhagsáætlanir standist
Hæfnikröfur

Sem leikstjóri þarftu að búa yfir listrænum hæfileikum til að skapa og geta deilt ábyrgð verks með hópi meðhöfunda. Mikilvægt er að geta laðað fram sköpunargleði og hugmyndaauðgi samstarfsfólks auk hæfni í skipulags- og áætlanagerð. Góð leiðtoga- og samskiptafærni eru einnig æskilegir eiginleikar ásamt því að vera hvetjandi og geta sýnt frumkvæði. Leikstjóri þarf að geta hugsað í lausnum og tekið ákvarðanir á skjótan og ákveðinn hátt.

Félag leikstjóra á Íslandi

Námið

Á Íslandi er ekki boðið upp á viðurkennt nám í leikstjórn, hvorki fyrir svið, kvikmyndir né sjónvarp. Listaháskóli Íslands býður upp á þriggja ára nám til BA-gráðu fyrir leikara, auk BA-náms fyrir sviðshöfunda og BA-náms í samtímadansi. Allar þessar brautir eru ágætur undirbúningur fyrir störf við leikstjórn. Þá býður Kvikmyndaskóli Íslands upp á námsleið í handritsgerð og leikstjórn.

Leikstjórn og framleiðsla
Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Tengd störf

Áhrifavaldur

Bókasafns- og upplýsingafræðingur

Búningagerðarmaður

Búningahönnuður

Dansari

Danshöfundur (kóreógraf)

Danskennari

Einkaþjálfari

Náms- og starfsráðgjöf