NÁM

Búfræði

Búfræði er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Náminu er meðal annars ætlað að auka færni og þekkingu nemenda á búrekstri. Námsgreinar skiptast í megin atriðum í búfjárrækt, einkum nautgriparækt og sauðfjárrækt, jarðræktargreinar, svo sem áburðarfræði og nytjajurtir, bútæknigreinar á borð við búvélafræði og búsmíði ásamt hagfræðigreinum eins og bókhald og bústjórn.

Meðalnámstími er tvö ár að meðtalinni 12 vikna námsdvöl á kennslubúi.

Kennsla

Búfræðinámið er kennt við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Kröfur
  • Umsækjandi þarf að hafa náð 18 ára aldri
  • Grunnskólapróf ásamt að minnsta kosti einu námsári í framhaldsskóla. Undantekning hugsanleg fyrir 24 ára og eldri með mikla starfsreynslu
  • Reynsla af landbúnaðarstörfum

Námið hefur verið lánshæft hjá hjá Menntasjóði námsmanna.

Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Námið skiptist á eftirfarandi hátt:

  • Hefst með tveimur önnum í skólanum. Bóklegt og að nokkru verklegt nám.
  • Námsdvöl frá aprílbyrjun fram yfir miðjan júní. Verkleg þjálfun í bústörfum ásamt verkefnavinnu.
  • Seinna árið eru nemendur í bóklegum og verklegum fögum í skólanum.
  • Námsdvölin fer fram á kennslubúum sem Landbúnaðarháskóli Íslands hefur samstarfssamning við.

Einnig hefur verið í boði fjarnám í búfræði en er einungis ætlað starfandi bændum sem náð hafa 25 ára aldri.

Að loknu námi

Að námi loknu geta nemendur unnið margvísleg störf tengd landbúnaði. Eins er námið góður undirbúningur til framhaldsnáms innan umhverfis- og náttúruvísinda, búvísinda eða dýralækninga.

Störf
Starf í landbúnaði
Búfræðingur
Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Náms- og starfsráðgjöf