Sálfræðinám til starfsréttinda er grunn- og framhaldsnám á háskólastigi. Í grunnnáminu er inngangur að helstu sviðum sálfræðinnar líkt og lífeðlislegri og hugrænni sálfræði, þroska- og félagssálfræði og áhersla lögð á rannsóknaraðferðir. Í framhaldsnáminu eru nemendur í verklegri þjálfun og geta sérhæft sig frekar á ýmsum sviðum sálfræðinnar.

Námstími til BS/BSc prófs er þrjú ár og tvö ár til Cand.psych./MSc í klínískri sálfræði.

Kennsla

Nám í sálfræði (BS/Cand.psych.) fer fram í sálfræðideild við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Nám í sálfræði (BSc/MSc) fer fram innan viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

Einnig er hægt að fara í grunnnám í sálfræði (BA próf) við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Kröfur
  • Grunnnám (BS/BSc): Inntökuskilyrði eru stúdentspróf eða sambærileg menntun.
  • Framhaldsnám (Cand.psych./MSc): Umsækjendur skulu hafa lokið BA/BS/BSc prófi í sálfræði.

Sjá nánar um inntökuskilyrði við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík.

Námið er lánshæft til framfærslu og skólagjalda hjá Menntasjóði námsmanna. Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Nám í sálfræði er fræðilegt og starfstengt. Í boði eru skyldu- og valnámskeið í staðbundnu námi.

  • Í framhaldsnámi (Cand.psych.) við Háskóla Íslands er lögð áhersla á klíníska sálfræði og klíníska barna- og skólasálfræði. Áherslur innan námsins eru á gagnreyndar meðferðir svo sem hugræna atferlismeðferð og athyglismeðferð. Nemendur fá meðal annars þjálfun í sérstakri Sálfræðiráðgjöf sem deildin rekur.
  • Í framhaldsnámi (MSc) við Háskólann í Reykjavík er klínísk sálfræði samþætt við nálganir hugrænnar atferlismeðferðar og hagnýtrar atferlisgreiningar.
  • Lokaverkefni/rannsóknarverkefni til BS/BSc prófs er unnið á þriðja ári og Cand.psych./MSc á fjórða til fimmta ári.
  • Starfsþjálfun fer fram á fjórða og fimmta ári við báða skólana.
Að loknu námi

Grunn- og framhaldsnámið veitir réttindi til að sækja um leyfi til að starfa sem sálfræðingur. Leyfið er hins vegar ekki veitt nema að undangenginni 12 mánaða verklegri þjálfun undir leiðsögn sálfræðings að loknu framhaldsnámi.

Eins er margvíslegt framhaldsnám í boði við deildir skólanna sem fólk getur sótt um að loknu grunnnámi ef það hyggur ekki á að starfa sem sálfræðingar.

Störf
Sálfræðingur
Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Náms- og starfsráðgjöf