Umboðsmenn sjá um að koma skjólstæðingum sínum á framfæri og stuðla að farsæld þeirra í starfi. Starfið felst í að sinna hagsmunum listamanna, skapa og vernda þá ímynd sem við á hverju sinni. Starfsumhverfi umboðsmanna getur verið nokkuð ólíkt. Algengast er að umboðsmenn vinni við sviðslistir á borð við tónlist, leiklist og kvikmyndir en einnig er til dæmis unnið fyrir myndlistar- og íþróttafólk.
Í starfi sem umboðsmaður ertu í talsverðum samskiptum við útgefendur, umboðsskrifstofur, höfundaréttarsamtök og bókunarskrifstofur auk þess sem talsvert getur verið um ferðalög til dæmis í kringum skipulagningu á viðburðum og við samningagerð.