STARF

Tollvörður

Starf tollvarða felst í að gæta þess að farið sé að lögum og reglum í sambandi við inn- og útflutning á vörum. Í því felst meðal annars að hafa eftirlit með innflutningi fíkniefna, falsaðs varnings (til dæmis matvæla og lyfja), vopna, geislavirkra og annarra hættulegra efna, menningarverðmæta og tryggja farmvernd, sóttvarnir og öryggi vöru. Tollvörður tekur þátt í vörnum gegn skipulagðri glæpastarfsemi til að sporna við áhrifum hennar á öryggi í samfélaginu.

Tollverðir hafa eftirlit með skipum og flugvélum sem koma erlendis frá og eru starfsstöðvar á flugvöllum, hafnarsvæðum, póstmiðstöðvum, vörugeymslum, hraðsendingarfyrirtækjum og á tollstöðvum um land allt. Í starfi sínu nota tollverðir ýmis tæki og tól svo sem gegnumlýsingartæki, gegnumlýsingarbifreiðar, efnagreiningartæki, geislamælingabúnað, tölvur og sértækan hugbúnað við tollframkvæmd og eftirlit auk fíkniefnaleitarhunda.

Tollverðir vinna í samstarfi við aðrar eftirlitsstofnanir og fyrirtæki á landamærum auk samstarfs við lögreglu til dæmis við útlendingaeftirlit og vegna fíkniefnasmygls.

Helstu verkefni
  • tolleftirlit við komu skipa og flugvéla
  • áhættugreining og skoðun á tollskýrslum og vörusendingum
  • eftirlit með póst- og hraðsendingum
  • sérhæfð leit í farartækjum, vörusendingum, farangri og á farþegum
  • haldlagning á ólöglegum innflutningi (smygli)
  • álagning og innheimta aðflutningsgjalda
Hæfnikröfur

Tollverðir þurfa að hafa lokið stúdentsprófi eða sambærilegri menntun. Nauðsynlegt er að hafa gott vald á íslensku og einu Norðurlandamáli auk ensku. Góð almenn þekking er einnig mikilvæg, hæfni í mannlegum samskiptum og gott líkamlegt form. Tollvörður þarf að hafa almenn ökuréttindi og hreint sakavottorð.

Tollvarðafélag Íslands

Námið

Tollskóli ríkisins annast nám tollvarða. Inngöngu í námið fá þeir sem ráðnir hafa verið til starfa hjá embætti Tollstjóra við tollgæslu eða tollendurskoðun og staðist hafa inntökupróf skólans.

Tollvarsla
Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Tengd störf

Afbrotafræðingur

Öryggisvörður

Náms- og starfsráðgjöf