STARF

Sýningarstjóri

Sýningarstjórar hafa umsjón með öllu því sem snýr að uppsetningu sýninga; skipulagningu, stjórnun, áætlanagerð, markaðssetningu og starfsmannaráðningum. Í starfinu felst að sinna jöfnum höndum þörfum höfunda sýningar og hönnuða ásamt því að sjá til þess að sýningin standist gæðakröfur. Starf sýningarstjóra getur verið nokkuð ólíkt til dæmis eftir því hvort unnið er með myndlist, hönnun eða fornminjar.

Í starfi sem sýningarstjóri gætirðu hvort tveggja starfað sjálfstætt eða á safni/stofnun, oft í samvinnu við sýningarhöfunda, hönnuði og safnverði auk þeirra sem koma að einstökum verkefnum svo sem tæknimenn, grafíska hönnuði, ljósahönnuði, fræðslufulltrúa, listfræðinga og iðnaðarmenn.

Helstu verkefni
  • hugmyndavinna um áherslur einstakra sýninga
  • finna viðeigandi muni til að sýna
  • skipuleggja og stjórna uppsetningu sýningar
  • gerð fjárhagsáætlana í samvinnu við yfirmenn
  • ráðning starfsfólks í tengslum við sýningu
  • hafa eftirlit með að uppsetning standist fjárhags- og tímaáætlanir
  • sjá um gerð auglýsinga, textagerð, yfirlestur og lagfæringar
  • samskipti vegna markaðsmála og fjölmiðla
Hæfnikröfur

Sýningarstjórar þurfa að geta unnið með fólki úr ýmsum áttum, stýrt vinnu, hvatt aðra áfram og sýnt frumkvæði. Nákvæm vinnubrögð og hæfni til að vinna að fjölbreyttum verkefnum eru mikilvægir eiginleikar ásamt hæfni í skipulags- og áætlanagerð. Þekking á fjármálum og færni í samningagerð er æskileg. Einnig er mikilvægt að hafa auga fyrir myndrænni uppsetningu sýninga ásamt áhuga og innsýn í viðfangsefni sýningarhöfundar.

Námið

Sýningarstjórar geta komið úr ýmsum áttum og með ólíkt nám að baki á borð við listfræði, heimspeki, fagurfræði, mannfræði, sagnfræði eða myndlistarnám. Einnig getur verið um að ræða þverfaglegt framhaldsnám á háskólastigi, svo sem í sýningarstjórnun. Í íslenska skólakerfinu má til dæmis benda á nám við Háskóla Íslands í safnafræði og þjóðfræði auk ofannefndra greina.

Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Tengd störf

Bókasafns- og upplýsingafræðingur

Búningagerðarmaður

Búningahönnuður

Dansari

Danshöfundur (kóreógraf)

Danskennari

Einkaþjálfari

Gervahönnuður

Náms- og starfsráðgjöf