STARF

Stálsmiður

Stálsmiður hannar og smíðar tæki, reisir og viðheldur mannvirkjum og sinnir skipasmíðavinnu og öðru sem byggir á málmsmíði. Stálsmíði er löggilt iðngrein.

Stálsmíði skiptist í þrjú sérsvið:

  • stálskipasmiður vinnur við byggingu og viðhald stálskipa
  • stálmannvirkjasmiður vinnur við byggingu og viðhald stálgrindahúsa, mastra, brúa og vélahluta
  • málmsuðumaður vinnur aðallega við málmsuðu

Í starfi sem stálsmiður gætirðu starfað á verkstæði, í vél-, járn- eða skipasmiðju eða hjá framleiðslu- og byggingafyrirtæki.

Helstu verkefni
  • smíða úr málmum og málmblöndum eftir vinnuteikningum og verklýsingum
  • taka þátt í smíði skipa, brúa eða annarra stórra mannvirkja
  • smíði málmhluta sem notaðir eru til sjós og lands
  • smíða, setja upp og viðhalda málm- og stálmannvirkjum
  • sníða til málma með leiser-, plasma-, vatns- eða logskurði
  • sandblása, saltsýruþvo eða olíubera fyrir yfirborðsmeðferð
Hæfnikröfur

Stálsmiður þarf að hafa góða þekkingu á þeim málmum, vélum og verkfærum sem unnið er með. Smíðað er úr stáli, áli og öðrum málmum og unnið með handverkfæri og málmsmíðavélar, hand- og tölvustýrðar.  Dæmi um vélar eru málmskurðar- og beygjuvélar, suðuvélar sem og málmslípivélar á borð við klippur, borvélar, sagir, valsa, pressur og slípirokka. Einnig eru notuð ýmis mælitæki svo sem fjarlægðar-, hæða- og hallamál við staðsetningu og uppsetningu véla og mannvirkja.

Í starfi sem stálsmiður er mikilvægt að hafa vald á fagteikningu í greininni, þekkja framleiðsluferli og eiginleika algengra smíðamálma og geta valið efni með tilliti til aðstæðna hverju sinni. Stálsmiðir þurfa að fara eftir ströngum öryggiskröfum í starfi.

Námið

Stálsmíði er kennd í BorgarholtsskólaTækniskólanum og Verkmenntaskólanum á Akureyri auk þess sem grunnnám málmiðngreina má finna víðar. Meðalnámstími er fjögur ár að grunnnáminu meðtöldu, þrjú ár í skóla auk starfsþjálfunar.

Raunfærnimat hefur farið fram og/eða kann að vera í boði.

Stálsmíði
Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Tengd störf

Aðstoð í málmiðnaði

Blikksmiður

Kælitæknir

Málmsuðumaður

Netagerðarmaður

Rennismiður

Tæknifræðingur

Tækniteiknari

Náms- og starfsráðgjöf