Leiðsögumenn leiðsegja einstaklingum eða hópum um landið, fjalla um það sem fyrir augu ber; náttúru, lífríki, mannlíf og áhugaverða staði ásamt því að leiðbeina um þá afþreyingu og þjónustu sem í boði er hverju sinni. Hægt er að sérhæfa sig í gönguleiðsögn, jeppaleiðsögn, hestaleiðsögn og jöklaleiðsögn svo nokkur dæmi séu tekin.
Leiðsögumaður vinnur í flestum tilfellum eftir áætlun ferðaskipuleggjenda. Leiðsögumenn vinna til dæmis fyrir ferðaskrifstofur, ferðaheildsala, söfn, opinberar stofnanir og afþreyingarfyrirtæki. Unnið er í samstarfi við landverði, skálaverði, bílstjóra og starfsfólk á ferðaskrifstofum og gististöðum og þess gætt að náttúru- og menningarminjar verði ekki fyrir skemmdum af völdum ferðafólks.
Leiðsögumenn þurfa að hafa lokið að lágmarki Fyrstu hjálp 1 sem er 20 klukkustunda námskeið.