Almennir læknar sinna mjög fjölbreyttum störfum og halda meðal annars utan um flest það er tengist sjúkrahús- og heilsugæsluvinnu, frá innlögn til útskriftar. Í starfinu felast mikil samskipti við sjúklinga, aðstandendur og annað heilbrigðisstarfsfólk auk þess sem læknar sinna oft umfangsmiklum vísindastörfum og kennslu við háskóla. Læknar eru löggilt heilbrigðisstétt.
Í starfi sem almennur læknir gætirðu starfað á almennri deild eða rannsóknarstofu sjúkrastofnana, við heilsugæslustöð og/eða á eigin lækningastofu. Starfið felur í sér mikið samstarf við hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, sálfræðinga, félagsráðgjafa, aðra lækna og sérfræðinga.