Til að mega stunda atvinnuköfun þarf að ljúka sérstöku köfunarprófi.
Iðnaðar-atvinnuköfun er ekki hægt að læra hér á landi en margir iðnaðarkafarar hafa sótt menntun til Skotlands eða Noregs. Hægt er að fara í gegnum mörg stig þjálfunar þar sem þekking og þjálfun eykst með hverju stigi. Hægt er að öðlast grunnréttindi og síðar bæta við sérhæfingu á borð við:
- Rafsuðu í kafi
- Mettunarköfun á ótakmarkað dýpi
- Köfun með aðflutt loft
Margir erlendir skólar gefa út alþjóðlega viðurkennd atvinnuköfunarréttindi. Sum réttindin gilda svæðisbundið til dæmis bara í Evrópu eða í Asíu. Mikilvægt er að kynna sér hvar réttindin gilda áður en farið er í nám.
Starfstengd köfunarréttindi krefjast sérstakrar þjálfunar. Námskeið hafa verið haldin hér á landi. Oftast eru það lokuð námskeið ætluð afmörkuðum hópi nemenda frá ákveðnum vinnustöðum. Mörg starfstengd köfunarnámskeið sem kennd eru hér á landi eru ekki alþjóðlega viðurkennd þótt stuðst sé við námskrá viðurkenndra erlendra skóla.
Atvinnu-sportkafararéttindi er hægt að öðlast hér á landi hjá sportköfunarkennurum.
Námið hefst með því að læra sportköfun en bæta svo við námskeiðum til að öðlast rétt til að læra fyrsta stig atvinnusportköfunar. Til þess að öðlast þann rétt þarf að hafa lokið 60 skráðum köfunum. Við lok námskeiðs má sækja um atvinnukafararéttindi F hjá Samgöngustofu og titilinn Dive Master. Kafarinn getur bætt við sig kennsluréttindum til þess að fá réttindi D hjá Samgöngustofu og titilinn Open Water Dive Instructor.
Atvinnusportkafararéttindi eru gefin út af alþjóðlega viðurkenndum köfunarsamtökum sem hafa ISO-staðlaða kennsluskrá. Kafarar með þessi réttindi geta starfað við ferðamannaköfunarþjónustu frá 18 ára aldri í nær öllum löndum en frá 20 ára á Íslandi.
Helstu alþjóðlegu sportköfunarsamtökin sem gefa út atvinnusportköfunarréttindi:
- PADI – Professional Association of Diving Instructors
- SSI – Scuba Schools International
- CMAS – Confédération Mondiale des Activités Subaquatiques
Samgöngustofa hefur eftirlit með þeim sem bjóða upp á námskeið í atvinnuköfun og gefur út atvinnukafaraskírteini á íslensku og ensku. Atvinnukafaraskírteini Samgöngustofu eru ekki alþjóðlega viðurkennd.
Skilyrði til atvinnuköfunar hér á landi:
- Vera orðinn 20 ára
- Standast með fullnægjandi hætti heilbrigðiskröfur
- Uppfylla menntunar- og hæfniskröfur
- Hafa gilt atvinnuköfunarskírteini útgefið af Samgöngustofu
Sex mismunandi atvinnuskírteini eru veitt:
- A – heimilar mettunarköfun á ótakmarkað dýpi
- B – heimilar köfun með allan búnað niður á 50 metra dýpi
- C – heimilar froskköfun („SCUBA“) niður á 30 metra dýpi án afþrýstibúnaðar
- D – veitir réttindi til kennslu áhugaköfunar
- E – ætlað fyrir nema í atvinnuköfun
- F – heimilar leiðsögu- og yfirborðsköfun með ferðamenn
- G – önnur köfun