Geðlæknar starfa við forvarnir geðsjúkdóma, greiningu þeirra, meðferð og endurhæfingu. Í starfinu felst einnig greining og meðferð ýmissa hegðunarvandamála. Geðlæknar nota margvísleg meðferðarúrræði; líffræðileg, félagsleg og/eða í formi sállækninga.
Sem geðlæknir geturðu ýmist unnið á einkastofu eða innan heilbrigðiskerfisins; á göngudeildum, dagdeildum, legudeildum eða endurhæfingarstöðvum. Geðlæknar leiða oftast samstarf innan geðheilbrigðiskerfisins og taka jafnframt þátt í kennslu og rannsóknum. Margir sérhæfa sig á sviðum á borð við barna- og unglingageðlækningar, meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga, öldrunargeðlækningar eða einstökum meðferðarformum. Læknar eru löggilt heilbrigðisstétt.