Fornleifafræðingar rannsaka fornar mannvistarleifar, jarðveg og aðrar minjar til að draga upp mynd af lifnaðarháttum og búsetu horfinna kynslóða. Starfið felst í uppgrefti og skráningu fornleifa ásamt ritstörfum og miðlun. Rannsóknir fornleifafræðinga snúa til dæmis að húsarústum, gröfum, líkamsleifum, sorphaugum, áhöldum, vopnum og skartgripum til að fá vísbendingar og upplýsingar um verkkunnáttu, verslunarhætti, trúarbrögð, heilsufar, mataræði og þjóðfélagsstöðu íbúa fyrri tíma.
Sem fornleifafræðingur gætirðu unnið við fjölbreytt verkefni; sinnt vettvangsvinnu á borð við uppgröft og skráningu, eða vinnu innandyra svo sem við túlkun, úrvinnslu, kennslu eða miðlun á rannsóknarniðurstöðum.