Bifvélavirkjar starfa við viðgerðir, viðhald og endurbætur á bílum og ökutækjum. Oft er um að ræða sérhæfingu í ákveðnum bifreiðategundum eða vélarhlutum en bifvélavirkjar vinna gjarnan við gangverk bílsins; gírkassa, vél, bremsur, stýri, eða rafbúnað. Bifvélavirkjun er löggilt iðngrein.
Bifvélavirkjar starfa flestir á bifreiðaverkstæðum en einnig við eftirlit hjá fyrirtækjum og skoðunarstöðvum og í verslunum sem selja ökutæki eða varahluti.