STARF

Augnlæknir

Augnlæknar sérhæfa sig í sjúkdómum sem tengjast augum og sjón. Dæmi  um slíka sjúkdóma geta verið sýkingar, augnskekkja, ský á auga, gláka og rýrnun eða skemmdir í augnbotnum. Augnlæknir sjúkdómsgreinir og meðhöndlar þessa sjúkdóma, framkvæmir augnaðgerðir og skrifar upp á lyf sé þess þörf.

Í starfi sem augnlæknir ertu í talsverðu samstarfi við annað heilbrigðisstarfsfólk. Flestir starfa á augnlæknastofum, oft í teymi með öðrum augnlæknum en einnig starfa augnlæknar á spítölum þar sem aðgerðir eru framkvæmdar.

Helstu verkefni
  • greining og meðhöndlun augnsjúkdóma
  • fylgja eftir greiningu með lyfjameðferð eða skurðaðgerð
  • sjónmæling og ávísun á gleraugu eða linsur
  • ráðgjöf og fræðsla
  • rannsóknir á augnsjúkdómum
Hæfnikröfur

Augnlæknar þurfa að hafa mikinn áhuga og þekkingu á vísindum og líffræði. Vandvirkni er afar mikilvægur eiginleiki þar sem starf augnlæknis krefst mikillar þolinmæði og byggist á nákvæmri vinnu. Augnlæknir þarf að hafa góða færni í mannlegum samskiptum, geta sýnt öguð vinnubrögð og getu til að vinna hvort tveggja sjálfstætt og í teymi með öðrum.

Augnlæknafélag Íslands

Námið

Til að fá viðurkenningu sem sérfræðingur í augnlækningum þarf fyrst að ljúka 6 – 7 ára almennu læknanámi og fá svokallað almennt lækningaleyfi. Síðan þarf að leggja stund á sérnám í augnsjúkdómum í 4 – 6 ár. Slíkt nám er fólgið í vinnu á augndeild undir handleiðslu reyndra augnlækna. Samhliða verklega náminu þarf að gangast undir bókleg námskeið og standast próf að þeim loknum. Dæmi um það er  EBOD-prófið fyrir evrópska augnlækna.

Sumir augnlæknar bæta við sig námi og sérhæfa sig á einu sviði augnlækninga til dæmis í gláku, sjónhimnum, barna- eða lýtalækningum. Flestir eru þó þjálfaðir til að annast öll augnvandamál.

Læknisfræði
Ekki fyrir þig?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Tengd störf

Geislafræðingur

Læknir

Lífeindafræðingur

Lyfjafræðingur

Næringarfræðingur

Tannlæknir

Náms- og starfsráðgjöf