Málaraiðn er starfstengt nám á framhaldsskólastigi. Í því felst að nemendur öðlist skilning, þekkingu og færni til að takast á við alla algenga verkþætti, allt frá mati á ástandi flatar og þar til æskilegri lokaáferð er náð. Einnig að útfæra ýmsa sérhæfða verkþætti eins og sandspörtlun bygginga, skrautmálun, skiltagerð og útfærslur á eldra handverki svo sem málun marmara- og viðarlíkinga. Hugsanlegt er að fá færni sem aflað er á vinnumarkaði metna.
Málaraiðn er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár að meðtalinni starfsþjálfun þar sem fylgt er rafrænni ferilbók sem heldur utan um framvindu vinnustaðanámsins.