Mála- og hugvísindabrautir framhaldsskóla bjóða upp á fjölbreytt og almennt bóknám með áherslu á tungumál, hugvísindi og menningu, meðal annars í tengslum við alþjóðasamskipti og ferðamál. Náminu lýkur með stúdentsprófi.

Kennsla

Málabrautir eða svipað nám hefur verið í boði við flesta framhaldsskóla og best að kynna sér þær nánar á heimasíðum hvers skóla fyrir sig.

Kröfur

Inntökuskilyrði geta verið breytileg og best að kanna þau í tengslum við hvern skóla. Nemendur þurfa þó að hafa lokið grunnskólaprófi með ákveðinni lágmarkseinkunn í kjarnagreinunum íslensku, dönsku, ensku og stærðfræði.

Námsskipulag

Nám á mála- og hugvísindabrautum er að mestu bóklegt og skiptist alla jafna í kjarna- og valgreinar þannig að laga megi námið ákveðnum þörfum eða áhugasviðum en valið er alltaf mikilvægt að skipuleggja með hliðsjón af aðgangsviðmiðum háskóla.

Kennslu- og námsaðferðir geta verið fjölbreyttar en í flestum tilfellum er áhersla lögð á tvö erlend tungumál til viðbótar við ensku og Norðurlandamál og/eða sérhæfingu í greinum sem tengjast öðrum hugvísindum.

Að loknu námi

Nám á mála- eða hugvísindabrautum getur verið góður undirbúningur fyrir ýmis konar áframhaldandi nám, til dæmis í tungumálum, listum, hug- og félagsvísindum eða ýmis störf sem krefjast tungumálakunnáttu svo sem í tengslum við fjölmiðlun, ferðaþjónustu, viðskipti eða utanríkismál.

Störf
Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Náms- og starfsráðgjöf