NÁM

Lýðskólanám

Lýðskólanám byggir á forsendum hvers og eins til náms fremur en á prófum eða einkunnum. Skapaðar eru aðstæður og umgjörð þar sem ábyrgðin á náminu er nemandans en megináherslan sú að uppgötva og styrkja þá hæfileika sem hver og einn býr yfir.

Námstími er alla jafna eitt skólaár en einnig mögulegt að ljúka einni önn að hausti eða vori.

Kennsla

Í Lýðskólanum á Flateyri er boðið upp á tvær námsbrautir. Hafið, fjöllin og þú tengist útivist og upplifun í náttúrunni með ferðalögum og hvernig hægt er að vinna með náttúruna, nýta hana og kanna á öruggan og umhverfisvænan máta. Námið fer að miklu leyti fram utandyra við hinar ýmsu aðstæður.

Hugmyndir, heimurinn og þú snýst um sköpun þar sem nemendur öðlast þekkingu og færni í skapandi starfi, frá hugmynd til framkvæmdar og miðlunar efnis.

Kröfur

Allir, 18 ára og eldri geta sótt um nám við lýðháskóla. Sjá nánar um umsóknir og inntöluskilyrði við Lýðskólann á Flateyri.

Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms en einnig hafa  sveitarfélög  styrkt nemendur til náms við Lýðskólann á Flateyri. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Námskeið við Lýðskólann á Flateyri fara fram í tveggja vikna lotum sem kennd eru af gestakennurum sem koma víðsvegar að. Þetta fyrirkomulag skapar tækifæri til að fá reynslumikið fólk og fagaðila, innan lands og utan, til að kenna námskeið við skólann. Við skólann starfa tveir fastráðnir starfsmenn, skólastjóri og kennslustjóri auk kennara á námskeiðum hverju sinni.

Námið fer fram með ýmsum hætti; umræðum, verkefna- og hópavinnu, fyrirlestrum, myndasýningum eða jafnvel tónleikum og ekki endilega í hefðbundinni kennslustofu innandyra, heldur og ekki síður, úti – jafnvel við líkamlega krefjandi aðstæður.

Að loknu námi

Nám í lýðskóla er meira en bara skóli þar sem samvera og samskipti við aðra nemendur og starfsfólk allan sólarhringinn er samofin náminu. Meðan á námsdvölinni stendur er því upplagt færi til að læra af öðrum, læra á sjálfa/n sig og taka í framhaldi ákvörðun um frekara val á námi eða stefnu í lífinu.

Störf
Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Náms- og starfsráðgjöf