Í íslenskunámi á háskólastigi er fengist við íslenskt mál og samtímabókmenntir en einnig fjallað um rætur íslenskra bókmennta og uppruna íslenskrar tungu.

  • Grunnnámi lýkur með BA gráðu
  • Námstími er þrjú ár

Hægt er að sérhæfa sig á tilteknu sviði með áherslu á íslenskar nútímabókmenntir, nútímamál, fornbókmenntir, fornmál, miðaldafræði, ritfærni, máltækni eða talmeinafræði.

Námsvalshjól Háskóla Íslands

Kennsla

Háskólanám í íslensku hefur verið í boði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.  Einnig hefur verið boðið upp á nám til meistaragráðu í tengdum greinum á borð við íslensk fræði og íslenska málfræði.

Kröfur

Inntökuskilyrði er stúdentspróf af bóknámsbraut eða sambærilegt nám. Nauðsynlegt er að hafa gott vald á íslensku og vera læs á ensku og Norðurlandamál.

Námið er lánshæft til framfærslu og skólagjalda hjá Menntasjóði námsmanna. Fræðslusjóðir stéttarfélaga veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Kennslan fer mikið til fram í formi fyrirlestra og umræðutíma auk heimaverkefna og ritgerðasmíði.

Ljúka þarf ákveðnum fjölda námskeiða í bókmenntum og málfræði en einnig eru afar fjölbreytt valnámskeið í tengslum við barnabókmenntir, glæpasögur, máltöku barna, málnotkun, dægurlagatexta og margt fleira.

Einnig er hægt að taka valnámskeið í skyldum greinum á borð við bókmenntafræði, málvísindi og þjóðfræði.

Að loknu námi

Háskólamenntun í íslensku getur nýst á flestum sviðum atvinnulífsins en sem dæmi má nefna kennslu á öllum skólastigum, fræða- og ritstörf eða störf sem tengjast menningu, listum, fjölmiðlun eða útgáfu.

Störf
Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Náms- og starfsráðgjöf