NÁM

Hjúkrunarfræði

Hjúkrunarfræði er fræðilegt og klínískt grunnnám á háskólastigi.  Í náminu er lögð áhersla á að kenna um manninn, umhverfi hans og heilsu og hvernig hægt er með hjúkrun að hafa áhrif á aðstæður og líðan. Á fyrstu árunum fer fram kennsla í undirstöðugreinum hjúkrunar í raun-, félags- og hugvísindum ásamt kennslu í hjúkrunarfræði og heilbrigðisvísindum, auk aðferðafræði og tölfræði.

Eftir því sem á námið líður eykst vægi hjúkrunarfræðinnar og við taka sérhæfðari klínísk námskeið í hjúkrunarfræði. Klínískt nám fer fram víða á heilbrigðisstofnunum öll námsárin, ýmist samhliða eða í kjölfar fræðilegrar kennslu.

Náminu lýkur með BS prófi. Námstími er fjögur ár.

Kennsla

Hjúkrunarfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Hjúkrunarfræði við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.

Kröfur

Inntökuskilyrði eru stúdentspróf af bóknámsbraut eða sambærilegt nám. Mælt er með að umsækjendur hafi lokið ákveðnum einingafjölda í ýmsum greinum framhaldsskólans. Sjá nánar um inntökuskilyrði hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri.

Námið er lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Fag- og stéttarfélög veita oft styrki til náms. Fáðu frekari upplýsingar hjá þínu félagi.

Námsskipulag

Nám í hjúkrunarfræði er fræðilegt og verklegt. Námið er í boði í staðnámi hjá báðum skólum en Háskólinn á Akureyri býður einnig upp á fjarnám.

Fræðileg námskeið eru á fyrstu tveimur til þremur árunum, lokaverkefni til BS prófs unnið á fjórða ári en klínísk þjálfun fer fram öll árin.

Að loknu námi

BS próf í hjúkrun veitir rétt til að sækja um starfsréttindi til Landlæknisembættis og geta nemendur að því fengnu starfað sem hjúkrunarfræðingar. Einnig eru möguleikar á framhaldsnámi í hjúkrunarfræði til meistara- og doktorsprófs, nám til  kandidatsprófs í ljósmóðurfræði og meistaranám í ljósmóðurfræði, auk doktorsnáms.

Störf
Hjúkrunarfræðingur
Ljósmóðir
Ekki þinn tebolli?

Skoðaðu aðra valmöguleika

Náms- og starfsráðgjöf